Saga

Heimskautsgerðið á Raufarhöfn er samfélagslegt verkefni íbúa á norðausturhorni Íslands. Það er jafnframt stærsta útilistaverk á Íslandi og rýs á Melrakkaás við Raufarhöfn sem er nyrsta kauptún landsins. Þar er dagurinn hvað lengstur á sumrin og stystur á veturna og sólin sest ekki í nokkrar vikur í kringum sólstöðurnar. Birtan er einstök og sökum hve landið er lágt þá skyggir ekkert á sjóndeildarhringinn í heilar 360 gráður en fyrir vikið nýtur sólin sín allt árið frá sólrisi til sólseturs. Í meginatriðum gengur hugmyndin um Heimskautsgerðið út á að tengja íslenska menningu, bókmenntasögu og sígild vísindi saman við sérstæðar umhverfisaðstæður á norðurhjara landsins. Útkoman er áhrifaríkt sjónarspil.

Heimskautsgerðið er um 50 metrar í þvermál en 6 metra há hlið vísa til höfuðáttanna. Í miðju hringsins er 10 metra há súla á fjórum stöplum sem áform eru uppi um að skarti kristaltoppi sem brýtur sólarljósið og varpar geislum sólar um allt Heimskautsgerðið. Allt grjót sem er notað í hleðsluna kemur úr grjótnámu Raufarhafnarhrepps en stærstu steinarnir vega allt að 3 tonn. 

Verkið er sprottið upp úr vangaveltum Erlings B. Thoroddsen um hvernig hægt er að virkja endalausa víðáttu þar sem ekkert skyggir á sjóndeildarhringinn, heimskautsbirtuna og miðnætursólina. Heimskautsgerðið er í senn sólúr, leikur að ljósi og sambland fornsögu- og menningarlegra hugmynda þar sem goðsögulegur hugarheimur og dvergatal Völuspár og Snorra Eddu koma við sögu. Utan um þennan hugarheim rís Heimskautsgerðið á Melrakkaási við Raufarhöfn. Haukur Halldórsson listamaður tók þátt í hugmyndavinnu með Erlingi og gerði skyssur og líkan sem stuðst er við.

Hugmyndin um heimskautsgerðið við Raufarhöfn sækir að nokkru leyti innblástur til þess merka og heimsþekkta mannvirkis á Englandi, einkum fyrir ákveðnar hliðstæður í verklegri ubbygingu mannvirkjanna. Önnur hliðstæða er þó ekki síður sýnileg: Heimskautsgerðið við Raufarhöfn er nefnilega ein af þessum hugmyndum sem útheimtir dálitla hugdirfsku og bjartsýni umnfram það sem almennt er, rétt eins og var með Stonehenge fyrir þessum árþúsundum

Sjónarspil ljóss og skugga varð til þess að Erlingur Thoroddsen, sem var hótelstjóri á Raufarhöfn, fór að velta því fyrir sér hvernig hægt væri að ná utan um þessa ótrúlegu víðáttu og lýsingu sem norðausturhornið hefur upp á að bjóða, og nýta í þágu ferðaþjónustu. Fyrstu hugmyndirnar voru að afmarka eyktarmörkin með sólúri og nýta áhrif miðnætursólarinnar til að magna upp áhrifin. En hvernig sem það var uppsett og skoðað þá buðu aðstæður á Melrakkasléttu upp á eitthvað ennþá öflugra. Vangaveltur hans um það hvernig hægt væri að virkja endalausa víðáttu, þar sem ekkert skyggir á sjóndeildarhringinn, heimskautsbirtuna og miðnætursólina, urðu að samtali við ýmsa aðila, vísindamenn, framkvæmdamenn, hugsuði og listamenn og í kjölfarið þróaðist hugmyndin. Það er svo þegar Erlingur viðrar hugmyndir sínar við Hauk Halldórsson, myndlistarmann, sem hlutirnir fara að taka á sig mynd, rétt eftir aldamótin. 

Það er ekki eingöngu áhersla á sólarljósið og birtuna í Heimskautsgerðinu heldur er um að ræða einskonar samruna nútíðar og fornnorrænnar menningar. Dvergatal Völuspár sést í nýju hlutverki og það er búið að dusta rykið af fornum sagnaheimi Snorra Eddu og færa til nútíðar. 

Í Völuspá er upptalning á dvergunum í vísum 9 til 16 og hefur sú upptalning verið kölluð dvergatalið. Heimskautsgerðið tvinnar saman tilvist dverganna við leikinn með sólarljósið og finnur þeim nýtt hlutverk. 

Í dvergatalinu er upptalning á dvergum, eins og áður segir, en hlutverk dverganna er óljóst, að þeim Austra, Vestra, Norðra og Suðra undanskildum, sem halda uppi himninum. Í hugmyndafræði Heimskautsgerðisins hefur dvergunum aftur á móti verið gefið hlutverk og þeir verið persónugerðir. Erlingur fékk ábendingu frá sérfræðing hjá Þjóðskjalasafni Íslands um að fyrrnefndur sérfræðingur hefði rekist á skrif Finns Magnússonar, leyndarskjalavarðar í Kaupmannahöfn, þar sem Finnur nefnir að nöfn dverganna séu vísun til árstíða. Þ.e. að dvergarnir í Völuspá tengist árhringnum. Í framhaldi af því verður árhringur dverga til. 

Árhringur dverga kemur til með að vera inni í gerðinu sjálfu, steinar sem hver um sig tákna ákveðinn dverg. Þessir dvergar eru alls 72 talsins.Vifri er til að mynda einn dverganna, hann er sá sem litar mörgum litum og er staðsettur í samræmi við það í árhringnum. Nöfn þeirra falla vel að árstíðum eins og lesa má í Snorra-Eddu og Völuspá. Vetrarfaðir sem lendir á fyrsta vetrardegi, Várkaldur í viku vors, Bjartur í viku sumars þegar nætur eru bjartar og Dvalinn í haustviku þegar allt leggst í dvala fyrir veturinn.Þeim hefur verið raðað inn í árið þannig að hver vika spannar 5 daga. Dvergarnir eru svo hluti af tímabilum goðanna sem eru gömlu mánuðirnir.  Þegar á árið er litið sést að það eru 6 dvergar sem tilheyra hverjum mánuði, eins og þeir voru, og hver mánuður tilheyrir ákveðnu goði. Úr verður einsskonar dverga-dagatal. Þannig er hægt að tengja dvergana við afmælisdaga og mynda tengsl við þá.

Í verkinu er stuðst við heimildir en þær stílfærðar að gerðinu. Þá er rétt að nefna að í verkinu er ekki farið í einu og öllu eftir óyggjandi söguskýringum eða bóklegum heimildum um dverga, tímatali eða öðrum þáttum sem nýttir eru.